Ísland tapaði 5:0 fyrir Þjóðverjum

Tinna Helgadóttir og Ragna Ingólfsdóttir mættu ofjörlum sínum í leiknum …
Tinna Helgadóttir og Ragna Ingólfsdóttir mættu ofjörlum sínum í leiknum við Þýskaland i. Árvakur/Golli

Íslenska kvennalandsliðið tapaði öllum fimm leikjum sínum á móti Þjóðverjum á EM í badminton í dag. Þjóðverjar sigruðu því í riðlinum og fara áfram í átta liða úrslit, en íslenska sveitin er úr leik, endaði í öðru sæti riðilsins. 

Íslenska kvennalandsliðið tapaði öllum þremur einliðaleikjunum á móti Þýskalandi og því ljóst að Þjóðverjar vinna Ísland í úrslitaleiknum í riðlinum á EM í badminton. Sara Jónsdóttir tapaði rétt í þessu fyrir Karin Schnaase 2:1, tapaði oddahrinunni 21:12. 

Tinna Helgadóttir tapaði fyrir Janet Köhler í annarri viðureigninni í úrslitaleik kvennalandsliða Þýskalands og Íslands í riðlakeppni Evrópumótsins sem nú stendur yfir í Hollandi.

Ragna Ingólfsdóttir beið lægri hlut fyrir einni  bestu badmintonkonu heims, Hwaiwen Xu, í fyrstu viðureigninni. Xu er í 7. sæti heimslistans og næststerkust í Evrópu og hún vann afar sannfærandi sigur á Rögnu, 21:9 og 21:9. Ragna er í 56. sæti á nýjasta heimslistanum sem birtur var í dag.

Tinna Helgadóttir, sem er númer 285 á heimslistanum, veitti Köhler harða keppni en sú þýska er í 118. sæti. Köhler vann 21:17 eftir jafna baráttu í fyrstu lotu og sigraði síðan 21:16 í þeirri næstu. Staðan þar með 2:0 fyrir Þjóðverja.

Sara Jónsdóttir og Karin Schnaase mættust í þriðju viðureigninni. Sú þýska er númer 231 á heimslistanum en Sara er ekki á honum. Sara vann fyrstu lotuna naumlega, 21:19, eftir góðan endasprett hjá þeirri þýsku. Schnasse jafnaði metin með því að vinna aðra lotu örugglega, 21:11. Úrslit þessarar viðureignar réðust því í oddalotu.

Sara var tveimur til þremur stigum yfir lengst af í oddalotunni en þegar staðan var 12:10 fyrir Söru tók sú þýska sig til og kláraði leikinn og vann 21:12, hún fékk því 11 stig í röð. Staðan 3:0 og Þjóðverjar hafa því sigrað sama hvernig tvíliðaleikirnir tveir fara.

Ragna og Kartín Altadóttir léku fyrri tvíliðaleikinn og mættu þar Juliane Schenk og Kathrinu Piotrowski. Þær Ragna og Katrín sáu ekki til sólar í fyrri lotunni og töpuðu 3:21 og þeirri síðari 8:21. Sara og Tinna mættu því næst Birgit Overzier og Michaelu Peiffer og stóðu sig ögn betur, töpuðu 7:21 og  11:21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert