Tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir eru hættir við að hætta í fótboltanum og hafa ákveðið að leika áfram með FH-ingum á komandi keppnistímabili. Bjarki mun hefja æfingar með Hafnarfjarðarliðinu í vikunni en Arnar dvelur í Glasgow fram á vorið í viðskiptaerindum og heldur sér í æfingu með því að æfa með skosku liði.
Arnar sagði við Morgunblaðið að þeim bræðrum hefði liðið ákaflega vel í FH en þeir komu til liðs við félagið fyrir síðasta tímabil, eftir að hafa leikið með ÍA árið 2006, og urðu bikarmeistarar með Hafnfirðingunum.