Afrekskvennasjóður Glitnis styður sjö íþróttakonur

Styrkþegarnir, fulltrúar þeirra og stjórnarmenn afrekskvennasjóðsins við úthlutunina í dag.
Styrkþegarnir, fulltrúar þeirra og stjórnarmenn afrekskvennasjóðsins við úthlutunina í dag. mbl.is

Sjö íþróttakonum var í dag úthlutað samtals 2,5 milljónum króna úr Afrekskvennasjóði Glitnis og Íþróttasambands Íslands og var þetta í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Hann hefur það að markmiði að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Íþróttakonurnar sjö eru:

Ásdís Hjálmsdóttir frjálsíþróttakona úr Ármanni. Ásdís stefnir ótrauð að þátttöku á ÓL í Peking. Íslandsmet hennar í spjótkasti 57,10 m. er yfir Ólympíulágmarkinu en Ásdís hefur verið óheppin með meiðsli og því lítið getað kastað síðasta árið. Ásdís hefur möguleika fram í júlí til að ná lágmarkinu. Framundan eru stífar æfingar og keppnir innanlands og utan.

Embla Ágústsdóttir sundkona úr íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Embla hefur verið í mikilli sókn undanfarna mánuði og á Íslandsmetið í öllum þeim sundgreinum sem hún keppir í. Sem stendur er Embla í 6. sæti á heimslistanum í 50 m. flugsundi og því 19. í 50m. skriðsundi. Framundan er æfingaferð til Danmerkur og keppni á opna breska meistaramótinu í maí. Ferðirnar verða notaðar sem liður í undirbúningi þess að tryggja sér sæti á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í september í Peking.

Erla Dögg Haraldsdóttir sundkona úr ÍRB hefur verið í stöðugri framför. Á síðasta ári setti hún tíu Íslandsmet og með árangri sínum á Íslandsmóti í 25 m. laug skipaði hún sér í fremstu röð í sínum greinum í Evrópu. Framundan eru strangar æfingar og keppnir með það að markmiði að tryggja þátttökurétt á ÓL síðar á árinu.

Ragnheiður Ragnarsdóttir sundkona úr KR er eina sundkonan sem tryggt hefur sér þátttökurétt á ÓL í sumar. Hefur hún náð lágmörkum í 50 og 100 m. skriðsundi. Á heimslista fyrir 50 m. laug er Ragnheiður í 29. sæti í 50 m. skriðsundi og 24. sæti í 100 m. skriðsundi. Fram að leikum mun hún keppa m.a. á EM í Hollandi auk móta í Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi. Auk þess sem hún mun dvelja við æfingar í Svíþjóð og Asíu.

Sigrún Brá Sverrisdóttir sundkona úr Fjölni hefur á undanförnum árum sýnt stöðugar framfarir. Sem stendur á hún þrjú gildandi Íslandsmet í kvennaflokki og 16 í unglingaflokkum. Eins og staðan er núna vantar hana um 1% í að ná lágmörkum fyrir ÓL í sínum bestu greinum. Framundan eru alþjóðleg mót á Spáni og Frakklandi auk EM í 50 m. laug.

Silja Úlfarsdóttir frjálsíþróttakona úr FH. Silja er ein af okkar bestu frjálsíþróttakonum. Hún hefur verið lengi að og er ávallt góð fyrirmynd. Silja er mjög nálægt lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Peking í 400 m. grindahlaupi. Hún er einungis 12/100 úr sekúndu frá lágmarkinu. Næstu mánuðir fara í æfingar og keppni með það að markmiði að tryggja sig inn á leikana. Meðal annars eru framundan æfingabúðir í Þýskalandi, Portúgal og Bandaríkjunum.

Sonja Sigurðardóttir sundkona úr íþróttafélagi fatlaðra Reykjavík. Sérgreinar Sonju eru skriðsund og baksund, í þeim greinum á hún öll Íslandsmet í sínum flokki. Sonja hefur nú þegar tryggt þér þátttökurétt í 50 m. baksundi á Ólympíumóti fatlaðra sem haldið verður í Peking í september.Í baksundi skipar hún 9. sæti heimslistans. Auk þess er Sonja í 22. sæti í 50 m. skriðsundi og 23. sæti í 100 m. skriðsundi á listanum. Framundan er æfingaferð til Danmerkur og keppni á opna Breska meistaramótinu.

Alls bárust 97 umsóknir í Afrekskvennasjóðinn að þessu sinni og nam heildarfjárhæð þeirra um 150 milljónum króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í september nk.  

Í stjórn sjóðsins sitja þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Vala Flosadóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert