Afrekskonur í íþróttum fá styrki á ólympíuári

Úthlutað var úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ í þriðja sinn í gær. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri.

Tvær og hálf milljón króna var til úthlutunar að þessu sinni og renna þær til sjö íþróttakvenna. Þær eru Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttakona úr Ármanni, Embla Ágústsdóttir, sundkona úr Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík, Erla Dögg Haraldsdóttir, sundkona úr ÍRB, Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona úr KR, Sigrún Brá Sverrisdóttir, sundkona úr Fjölni, Silja Úlfarsdóttir, frjálsíþróttakona úr FH, og Sonja Sigurðardóttir, sundkona úr Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík.

Í stjórn Afrekskvennasjóðs Glitnis og ÍSÍ sitja þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Vala Flosadóttir. Úthlutunin í ár tekur mið af því að í ár er ólympíuár og margar íþróttakonur keppast við að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. Alls bárust 97 umsóknir í Afrekskvennasjóðinn að þessu sinni og nam heildarfjárhæð þeirra um 150 milljónum króna. Næsta úthlutun verður í september næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka