Andrew Symonds er ekki vel þekktur á Íslandi en ástralski landsliðsmaðurinn í krikket á yfir höfði sér langt keppnisbann fyrir að stöðva mann sem hljóp nakinn inn á völlinn í landsleik Ástralíu og Indlands.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem að nakinn maður truflaði einbeitingu landsliðsmannanna í þessari viðureign og hafði Symonds fengið nóg þegar hann sá nýjan einstakling hlaupa nakinn í átt að honum. Symonds gerði sér lítið fyrir „tæklaði“ þann nakta líkt og gert er í ruðningsíþróttinni og lá maðurinn kylliflatur á eftir.
Öryggisverðir fjarlægðu síðan nakta manninn og verður hann útilokaður frá frekari heimsóknum á krikketviðburðinn. Symonds á hinsvegar yfir höfði sér harða refsingu þar sem að hann þótti beita mjög öflugum aðferðum þegar hann felldi manninn.