Hildur Karen Aðalsteinsdóttir mun taka við sem framkvæmdastjóri Sundsambands Íslands frá og með 1. júní á þessu ári. Hildur hefur á undanförnum árum þjálfað og kennt sund hjá Sundfélagi Akraness og tekur hún við starfinu af Jönu Sturlaugsdóttur. Á nýliðnu sundþingi sem haldið var 22.-23. febrúar s.l. voru gerðar ýmsar breytingar á stjórn Sundsambandsins.
Fréttatilkynning:
Sundþingi var haldið 22. og 23. febrúar 2008. Allmörg mál voru til umræðu og ríkti mikil eindrægni meðal þingfulltrúa. Nýkjörin stjórn sambandsins er að fara yfir samþykktir þingsins sem verða kynntar á næstu dögum.
Miklar breytingar urðu á stjórn SSÍ á þinginu. Ásdís Vatnsdal, Júlíus Guðnason og Benedikt Sigurðarson báðust undan endurkjöri og Sólveig Baldursdóttir óskaði lausnar frá stjórnarstörfum þó hún ætti þrjú ár eftir af kjörtíma sínum. Einnig gaf R. Edda Ottósdóttir sem setið hefur í varastjórn SSÍ ekki kost á sér til endurkjörs. Í stað þessara einstaklinga voru kjörin Bjarney Snævarsdóttir ÍRB, Ólafur Baldursson ÍBS og Ragnar Marteinsson ÍBR í aðalstjórn til eins árs ásamt Hlín Ástþórsdóttur ÍBH sem var endurkjörin. Þá var Magnús Þór Hafsteinsson ÍA kosin til þriggja ára í aðalstjórn sambandsins. Í varastjórn var Þröstur Haraldsson ÍBH endurkjörinn og Ásta Birgisdóttir ÍBA kjörin ásamt honum. Hörður J. Oddfríðarson formaður var endurkjörinn án mótframboðs.
Samþykkt var ný reglugerð fyrir Aldursflokkameistaramót Íslands, AMÍ og verður keppt eftir henni í Hafnarfirði í júní í sumar en með nýrri reglugerð verður keppt í undanrásum og úrslitum í flokkum 13 ára og eldri. Bætt var við einu ári í elsta aldursflokki þannig að nú geta þeir sem eru 18 ára keppt á AMÍ og einnig verða sett sérstök lágmörk fyrir 11 ára og yngri.
Einnig var samþykkt ný reglugerð fyrir Bikarkeppni SSÍ sem einnig á að keppa eftir í sumar. Meðal helstu nýunga í Bikarkeppni SSÍ er að liðunum verður skipt upp í karla og kvennaflokka sem keppa sérstaklega um Bikarmeistaratitla karla og kvenna en kepptu félögin með blönduð þó greinarnar væru alltaf kynjaskiptar.
Aðrar samþykktir þingsins sneru að innri málefnum sundhreyfingarinnar. Þó má geta þess að með lagabreytingu eiga íþróttakennarar nú seturétt á sundþingum.
Ný stefna SSÍ sem gildir til ársins 2016 var samþykkt og vísað til stjórnar til eftirfylgni.
Þingforsetar voru Hafsteinn Pálsson sem situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ og Magnús Þór Hafsteinsson ÍA. Þingritari var Ragnhildur Guðjónsdóttir ÍBR.
Eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar SSÍ var að ráða Hildi Karen Aðalsteinsdóttur sem framkvæmdastjóra sambandsins frá 1. júní 2008 en hún mun einnig vinna að sérverkefnum fram að þeim tíma. Hildur Karen er sundhreyfingunni að góðu kunn kemur frá Bolungarvík og hefur verið burðarstólpi í Sundfélagi Akraness undanfarin ár en eins og flestir hafa orðið varir við hætti Jana Sturlaugsdóttir störfum sem framkvæmdastjóri SSÍ í lok janúar sl. Hún hefur þegar horfið til annarra starfa en verður stjórn SSÍ og nýjum framkvæmdastjóra innan handar fram eftir vori. Það er auðvitað eftirsjá að góðu starfsfólki en stjórn SSÍ óskar Jönu alls góðs á nýjum vettvangi og þakkar henni ánægjulegt samstarf undanfarin misseri.
Hinn framkvæmdastjóri SSÍ Brian D. Marshall hóf barneignarleyfi sitt við síðustu áramót og var áætlað að hann kæmi aftur til starfa um miðjan júní. Hann hefur óskað eftir starfslokum og varð stjórn SSÍ við því. Stjórn SSÍ vill þakka Brian vel unnin störf þau ár sem hann stjórnaði landsliðum SSÍ og öðrum verkefnum sem stuðluðu að frekari útbreiðslu sundíþrótta á Íslandi og óskar honum einnig góðs gengis í nýju starfi á sumri komandi.
Stjórn SSÍ kom saman sl miðvikudag og skipti með sér verkum. Þetta árið var ákveðið að hverfa frá hefðbundinni skiptingu embætta svo sem varaformanns og ritara en starfi stjórnarinnar þess í stað skipt upp í fjórar stoðir auk daglegs amsturs. Hugmyndin er sú að virkja fleiri einstaklinga innan stjórnar og gefa fleira fólki tækifæri til að bera meiri ábyrgð í störfum sínum fyrir sambandið auk þess sem starfið verður skilvirkara. Verk skiptust þannig:
Landsliði og öðru afreksstarfi stýrir Ríkarður Ríkarðsson
Móta- og dómararamálum stýrir Ólafur Baldursson
Fjáröflunum og fjölmiðlakynningum stýrir Ragnar Marteinsson
Fræðslu-, útbreiðslu og málefnum annarra sundíþrótta stýrir Hlín Ástþórsdóttir
Nýr gjaldkeri SSÍ er Bjarney Snævarsdóttir.
Stjórnin skipaði einnig í nefndir sambandsins eftir því sem við varð komið og eru fulltrúar stjórnar í öllum nefndum sem hér segir.
Landsliðsnefnd: Ríkarður Ríkarðsson
Móta- og tækninefnd: Lúther Sigurðsson og Þröstur Valdimarsson
Dómaranefnd: Ólafur Baldursson
Fjáröflunar- og kynningarnefnd: Ragnar Marteinsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Bjarney Snævarsdóttir
Fræðslunefnd: Hlín Ástþórsdóttir og Ásta Birgisdóttir
Sundíþróttanefnd: Hlín Ástþórsdóttir
Sundknattleiksnefnd: Ríkarður Ríkarðsson
Sjósundnefnd: Ragnar Marteinsson
Garpanefnd: Þórunn Guðmundsdóttir
Aga- og siðanefnd: Magnús Þór Hafsteinsson
Mannvirkjanefnd: Þröstur Valdimarsson.
Ekki eru allar nefndir fullskipaðar en fulltrúar stjórnar vinna í þeim málum fyrir næsta stjórnarfund.