„Gunnar Nelson stefnir á að fara til Havaí í mars og æfa þar með UFC [Ultimate Fighting Championship]-heimsmeistaranum B.J. Penn,“ segir í fréttabréfinu Bardagaíþróttafréttum.
Gunnar er eini íslenski atvinnumaðurinn í MMA, sem eru blandaðar bardagalistir. B.J. Penn er núverandi heimsmeistari í léttvigt og er sá eini sem hefur unnið heimsmeistaratitil í tveimur þyngdarflokkum. Hann er kallaður Undrið og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að verða Brasilíu-meistari í jiu-jitsu.
Gunnar hefur fikrað hratt sig upp metorðastigann í blönduðum bardagalistum síðustu mánuði. 24 stundir greindu frá því desember á síðasta ári þegar Gunnar rotaði breska sérsveitarmanninn Barry Mairs þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fyrstu lotu. Hver lota er fimm mínútna löng í blönduðum bardagalistum og barist er í þrjár lotur.
„Ef ég næ þeim á flótta get ég auðveldlega haft áhrif á þá,“ sagði Gunnar í viðtali við 24 stundir í desember um aðferðina sem hann notar til að klekkja á andstæðingum sínum. „Ég tek þá niður og vinn í jörðinni. Aðalmálið er að plata þá þegar ég er að taka þá niður. Láta þá halda að ég ætli að kýla þá. Í rauninni er rosalega erfitt fyrir þá að kýla mig því þeir eru alltaf að hugsa um að ég sé að fara að taka þá niður.“
Í Bardagaíþróttafréttum kemur ennfremur fram að blandaðar bardagalistir (MMA) njóti vaxandi vinsælda. Tvö stærstu MMA-sambönd Bandaríkjanna, UFC og EliteXC, gerðu nýlega risasamninga við stór fyrirtæki vestra. „EliteXC-keppnin var að gera margra ára samning við CBS-sjónvarpsstöðina og UFC var að gera þriggja ára styrktarsamning við Anheuser-Busch,“ segir í Bardagafréttum. Anheuser-Busch er stærsti bjórframleiðandi Bandaríkjanna og framleiðir meðal annars Budweiser-bjórinn. Fyrirtækið á hlut í íslenska vatnsfyrirtækinu Icelandic Glacial, sem athafnamaðurinn Jón Ólafsson og sonur hans eiga að stærstum hluta.