Hópur tíbetskra andófsmanna hefur boðað mótmælaaðgerðir í tengslum við athöfn, sem fer fram í fyrramálið í fornu borginni Ólympíu í Grikklandi en þá verður tendraður ólympíueldurinn, sem borinn verður til Peking þar sem sumarleikarnir fara fram í ágúst. Mikil öryggisgæsla verður við athöfnina á morgun.
Talsmaður samtaka Tíbetanna hvatti í dag Alþjóðaólympíunefndina til að koma í veg fyrir, að ólympíueldurinn verði borinn um Tíbet, eins og til stendur. Sagði hann, að með því að leyfa Kínverjum að fara með eldinn um Tíbet væri verið að horfa framhjá hálfrar aldar blóðugri stjórn Kínverja þar.
Gert er ráð fyrir að Jacques Rogge, formaður Alþjóðaólympíunefndarinnar verði viðstaddur athöfnina í Ólympíu þar sem ólympíuleikarnir hinir fornu fóru fyrst fram 776 fyrir Krist.