Pétur Þórir Gunnarsson úr HSÞ varð Glímukóngur Íslands í fyrsta sinn í dag og Svana Hrönn Jóhannsdóttir, GFD, Glímudrottning í þriðja sinn í röð og fjórða sinn alls. Íslandsglíman fór fram á Akureyri. Keppnin í karlaflokki var æsispennandi.
Sigur Svönu Hrannar var öruggur en keppnin í karlaflokki var gríðarlega hörð. Frændurnir Pétur Þórir og Pétur Eyþórsson, KR, voru jafnir og háðu úrslitaglímu þar sem keppnin var gríðarleg. Pétur Þórir verður tvítugur í maí en Pétur Eyþórsson er áratug eldri. Svo fór að HSÞ-ingurinn, Pétur yngri, fagnaði sigri, gegn þreföldum Glímukóngi.