Guðmundur E. Stephensen Íslandsmeistari í borðtennis hóf keppni í dag á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana í Peking í Kína en úrtökumótið fer fram í Frakklandi. Guðmundur lagði Yang Min í fyrstu umferð riðlakeppninnar en Min er frá Ítalíu.
Guðmundur sigraði 4:2 (11:9, 8:11, 13:11, 14:12, 10-12 og 14:12). Alls fá 11 efstu á þessu úrtökumót keppnisrétt á ÓL en árangur Guðmundar í dag er áhugaverður ef tekið er mið af stöðu þeirra á heimslistanum. Guðmundur er í 236. sæti en Min er í 74. sæti heimslistans.
Síðdegis í dag keppir Guðmundur við Ivan Katkov frá Úkraínu sem er í 225. sæti heimslistans. Á morgun keppir Guðmundur við Patrick Chila frá Frakklandi sem er í 58. sæti heimslistans. Alls eru 65 keppendur á þessu móti og 11 þeirra komast áfram eins og áður segir á ÓL í Peking.