Töpuðu naumlega fyrir Spánverjum

Hörð barátta í leik Íslands og Spánar í morgun.
Hörð barátta í leik Íslands og Spánar í morgun. Ljósmynd/Helgi Valsson

Spánverjar sigruðu Íslendinga, 4:3, í þriðju umferð 2. deildarkeppni heimsmeistaramótsins í íshokkí karla en leikur liðanna fór fram í Newcastle í Ástralíu í morgun.

Guillermo Bertran kom Spánverjum yfir í fyrsta leikhluta og í öðrum leikhluta bættu Alexei Roshtshin, Pablo Gijon og Joan Munoz við mörkum, 4:0. Stórsigur Spánverja blasti við.

Daniel Eriksson minnkaði muninn fyrir Ísland í 4:1 í upphafi þriðja leikhluta. Stefán Hrafnsson bætti við marki, 4:2, þegar enn voru 10 mínútur til leiksloka og Spánverjar voru komnir í talsverð vandræði vegna brottrekstra.

Jónas Magnússon minnkaði svo muninn í 4:3 þegar 8 mínútur voru eftir en Spánverjum tókst að halda fengnum hlut á lokasprettinum.

Kína vann Mexíkó í morgun, 5:3, og er í efsta sæti riðilsins með 7 stig. Ástralía er með 6 stig, Ísland og Spánn 4 stig, Mexíkó 3 og Nýja-Sjáland er án stiga.

Einn leikur er eftir í þriðju umferðinni í dag, milli Ástralíu og Nýja-Sjálands. Íslenska liðið mætir Ástralíu á laugardaginn og Mexíkó í lokaumferðinni á sunnudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert