Ásdís Halla Bragadóttir var í dag kjörin formaður Frjálsíþróttasambands Íslands og er hún fyrsta konan sem gegnir þessu embætti frá stofnun sambandsins árið 1947.
Hún tekur við af Arnþóri Sigurðssyni sem hefur verið formaður FRÍ undanfarin tvö ár en gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Guðlaug Baldvinsdóttir var einnig kjörin ný inn í stjórn sambandsins og þeir Gestur Guðjónsson, Gunnar Sigurðsson og Hörður Sverrisson voru endurkjörnir í stjórnina. Í varastjórn voru kjörin þau Birgir Guðjónsson, Dóra Gunnarsdóttir, Felix Sigurðsson, Ingibjörg St. Ingjaldsdóttir og Stefán Jónasson.
Hagnaður af rekstri FRÍ árin 2006 til 2007 nam samtals 2.554.463 krónum, eftir fjármagnsliði. Eigið fé var neikvætt um 6.247.652 krónur og langtímaskuldir sambandsins um síðustu áramót voru 6.259.807 krónur.