Dagný Linda leggur skíðin á hilluna

Dagný Linda Kristjánsdóttir.
Dagný Linda Kristjánsdóttir. mbl.is/Brynjar Gauti

Dagný Linda Kristjánsdóttir, fremsta skíðakona Íslands um árabil, hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna og hætta æfingum og keppni. Dagný Linda hefur átt við þrálát meiðsli að stríða á hægri fótlegg og fyrir liggur að hún þurfi að gangast undir aðgerð.

Í fréttatilkynningu frá Skíðasambandi Íslands er haft eftir Dagnýju meðal annars:

„Ég er sátt við að hafa tekið þessa ákvörðun þó það séu mér mikil vonbrigði að geta ekki náð því markmiði, sem ég hafði sett mér, að keppa á Ólympíuleikunum í Vancouver í Kanadaárið 2010. Það er ljóst að þau meiðsli sem ég hef átt við að stríða í vetur hafa nú sett verulegt strik í reikninginn.

Á mínum ferli hef ég upplifað margt og haft tækifæri til þess að ferðast til fjölmargra landa vegna æfinga og keppni. Fyrir það er ég afar þakklát. Sá stuðningur sem ég hef fengið frá Skíðasambandinu, Akureyrarbæ, fjölmörgum fyrirtækjum, Afrekssjóði ÍSÍ, Skíðafélagi Akureyrar, sjúkraþjálfurum og læknum að ógleymdri fjölskyldu minni hefur verið mér ómetanlegur og án hans hefði ég ekki keppt á skíðunum í öll þessi ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert