Michael Johnson, fimmfaldur Ólympíumeistari í spretthlaupum segist ætla að skila einni medalíunni úr safni sínu, en það er gullið sem Johnson vann með sveit Bandaríkjanna í 4x400 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
Ástæðan er sú að einn liðsmanna sveitarinnar, Antonio Pettigrew hefur viðurkennt að hafa neytt ólöglegra lyfja á þessum tíma.
„Ég veit að þessi medalía var ekki unnin á heiðarlegan hátt og fyrir mér er hún því svört af skömm. Ég mun skila henni þar sem ég hef engan áhuga á því að eiga hana. Mér finnst ég hafa verið svikinn,“ sagði Michael Johnson.
Auk Johnson og Pettigrew voru bræðurnir Alvin og Calvin Harrison í hlaupasveit Bandaríkjanna í Sydney árið 2000.