Fjögur íslensk ungmenni munu keppa á Norðurlandameistaramóti unglinga í fjölþrautum um helgina, en mótið fer fram í Jyväskylä í Finnlandi.
Frjálsíþróttamennirnir fjórir sem keppa fyrir hönd Íslands á mótinu eru Einar Daði Lárusson, Sveinn Elías Elíasson, Helga Margrét Þorsteinsdóttir og Guðrún María Pétursdóttir. Þeir Einar Daði og Sveinn Elías keppa í tugþraut í flokki 18-19 ára en Helga Margrét og Guðrún María í sjöþraut í aldursflokknum 17 ára og yngri.
Einar Daði, Sveinn Elías og Helga Margrét tóku öll þátt í mótinu í fyrra og höfnuðu þau öll í öðru sæti í sínum aldursflokki þá. Guðrún María er hins vegar í fyrsta sinn meðal keppenda á þessu móti, en hún verður 16 ára á þessu ári. | thorkell@mbl.is