Bæst hefur í hóp íslenskra Ólympíufara, en sundkonan Sigrún Brá Sverrisdóttir, sundkona úr Fjölni, náði í dag Ólympíulágmarki í 200 metra skriðsundi á Mare Nostrum mótaröðinni sem fram fer í Mónakó.
Sigrún Brá synti á tímanum 2.03.35 og bætti þar með Íslandsmetið í greininni. Fyrr um daginn hafði hún einnig bætt Íslandsmetið í greininni, þannig metið var því tvíbætt af Sigrúnu í dag.
Sigrún Brá er fimmti íslenski sundmaðurinn sem tryggir sig inn á Ólympíuleikana í Peking sem fram fara í ágúst á þessu ári. Hinir eru Örn Arnarson, Jakob Jóhann Sveinsson, Ragnheiður Ragnarsdóttir og Erla Dögg Haraldsdóttir.