Norðurlandameistaramótið í skylmingum með höggsverði fór fram í gær í Skylmingamiðstöðinni við Baldurshaga. Var mótið æsispennandi enda komu keppendur frá öllum Norðurlöndunum nema Noregi. Íslendingar hafa löngum verið sigursælir á þessum mótum enda er höfuðáherslan hérlendis á höggsverð. Mikil stemning var í salnum er ljósin voru slökkt og einungis skylmingabrautin stóð eftir upplýst. Áhorfendur í sal voru duglegir að hrópa og hvetja sína keppendur og fánum var veifað.
Tvær systur, Þær Gunnhildur Garðarsdóttir, 15 ára, og Sigrún Inga Garðarsdóttir, 18 ára, mættust í úrslitaviðureign stúlkna yngri en 20 ára og lauk bardaganum svo að Gunnhildur vann systur sína á mjög sannfærandi hátt, 15:5.
Í drengjaflokki undir 20 ára mættust þeir Jónas Ásgeirsson, 15 ára og Sævar Baldur Lúðvíksson, 18 ára. Bardaginn var nokkuð jafn og tvísýnn framan af en í síðari hluta bardagans efldist Sævar og átti Jónas ekkert svar við því. Vann Sævar 15:11.
Í kvennaflokki mættust þær stöllur Guðrún Jóhannsdóttir og Þorbjörg Ágústsdóttir sem vann Viking Cup mótið síðustu helgi. Bardaginn var hnífjafn nánast allan tímann og skiptust þær Þorbjörg og Guðrún á um að leiða þar til Guðrún komst upp í 8 stig. Leiddi hún bardagann eftir það. Guðrún náði að auka muninn upp í 5 stig en þá tók Þorbjörg tvö stig í röð og var þá staðan 14:9 fyrir Guðrúnu. Þorbjörg gat þó ekki stöðvað andstæðing sinn sem sigraði bardagann, 15:11. Má segja að Guðrún hafi þarna hefnt sín en hún tapaði í úrslitum Viking Cup fyrir Þorbjörgu.
Síðasti bardagi kvöldsins var í karlaflokki en þar áttust við Finninn Mika Roman og Ragnar Ingi Sigurðsson sem sigraði í karlaflokki Viking Cup. Ragnar er margfaldur meistari bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi en hið sama gildir um Mika Roman og hafa þeir oft mæst áður. Ragnar tók fljótlega forystuna í bardaganum og leiddi nokkuð örugglega þrátt fyrir mikinn bardagahug í Mika og nokkur stórglæsileg stig. Endaði bardaginn með sigri Ragnars, 15:7. Hampaði hann þarna fimmta Norðurlandameistaratitlinum á 6 árum.
„Vissi að ég myndi vinna“
Guðrún Jóhannsdóttir sem æft hefur í Kanada undanfarin ár var spurð um líðanina eftir leikinn. „Ég er auðvitað mjög sátt, sérstaklega eftir tapið móti Tobbu síðustu helgi. Þá var ég ekki skylmast eins og ég best get en það gerði ég kvöld.“
Guðrún heldur aftur til Kanada fljótlega þar sem hún mun taka þátt í sterku landsmóti. Næst liggur svo leiðin á Evrópumeistaramótið í Kiev sem haldið verður þann 4. júlí.
Ragnar Ingi sagði eftir bardagann að allt hefði smollið saman fyrir sig. „Ég var algerlega í rétta gírnum. Ég hrökk í hann í undanúrslitunum á móti Finnanum Olli Mahlamaki og vann hann sannfærandi. Þá varð ég alveg viss um að ég myndi vinna. Og það stóðst!“
Norðurlandameistaramótið heldur áfram í dag í Baldurshaganum með liðakeppni.