Helga Margrét Þorsteinsdóttir, frjálsíþróttakonan efnilega úr Ármanni, á góða möguleika á að slá Íslandsmetið í sjöþraut í dag. Helga, sem er aðeins 16 ára gömul og úr Hrútafirði, er með 3.308 stig eftir fyrri daginn á alþjóðlegu fjölþrautamóti í Prag í Tékklandi. Íslandsmet Kristínar Birnu Ólafsdóttur er 5.402 stig og miðað við árangur Helgu í greinunum sem eftir eru í dag á hún góða möguleika á að bæta metið um 200-300 stig. Þá heggur hún líka nærri ólympíulágmarkinu í greininni sem er 5.800 stig.
Helga hljóp 100 m grindahlaup á 14.92 sekúndum, stökk 1,71 m í hástökki og bætti sig þar um 5 sentimetra, kastaði kúlu 12,87 metra og hljóp 200 metra á 25,18 sekúndum.