„Aldrei verið í jafn litlu stuði“

Silja kom fyrst í mark í sex greinum þrátt fyrir …
Silja kom fyrst í mark í sex greinum þrátt fyrir „stuðleysið“. mbl.is/Árni

„Þetta var algjör snilld. Við vissum að ÍR-ingarnir yrðu með sterka kvennasveit en markmiðið var að halda kvennabikarnum í Firðinum, og það tókst svo við erum mjög ánægðar,“ sagði Silja Úlfarsdóttir, fyrirliði FH, eftir að liðið varð bikarmeistari í frjálsum íþróttum í 15. sinn, á Kópavogsvelli í dag.

„Ég er hrikalega ánægð með liðið og margir stóðu sig betur en maður átti von á. Þetta er bara frábært,“ bætti Silja við.

Silja sigraði í fjórum einstaklingsgreinum á mótinu, 100, 200 og 400 metra hlaupi og 400 metra grindahlaupi, auk þess að leika aðalhlutverk í boðhlaupssveit FH-inga sem vann 4x100 metra hlaupið og 1.000 metra hlaupið. 

Aðspurð hvort ekki sé erfitt að nánast bera kvennalið FH á baki sér svaraði Silja: „Auðvitað verður það það, en stelpurnar eru allar á uppleið og munu hjálpa meira til á næsta ári. Annars er svolítið fyndið að það virðist ekkert vera neitt merkilegt að maður vinni, en ef ég vinn ekki þá er það fyrst orðið frétt, en ég er mjög ánægð.

Ég hef aldrei verið í jafn litlu stuði á bikarmóti og er fegin að hafa alla vega getað skilað mínu. Ég var að koma úr Evrópubikarnum og ákvað að fara bara beint í æfingar, þannig að það var svolítil þreyta í mér. En núna ætla ég að nota næstu viku í að hvíla mig,“ sagði Silja.

Úrslit úr mótinu má sjá með því að smella hér

Nánar verður fjallað um bikarkeppni FRÍ í Morgunblaðinu á mánudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert