„Ég fann að kastið heppnaðist vel en fannst það ekkert frábært, en svo horfði ég bara á spjótið svífa og svífa,“ sagði spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni sem setti glæsilegt Íslandsmet í gær þegar hún kastaði spjótinu 59,80 metra á frjálsíþróttamóti í Finnlandi. Þar með bætti hún eigið met um hvorki meira né minna en 2,31 metra og vann mótið örugglega.
„Ég var búinn að búast við þessu í nokkurn tíma því ég hef verið að kasta mjög jafnt og þegar þannig gengur er alltaf von á að ná aðeins lengra. Nú er ég náttúrlega orðin alveg laus við meiðsli og það hefur verið markmiðið hjá mér í nokkurn tíma að kasta yfir 60 metrana. Núna er bara komið að því og það munaði eiginlega grátlega litlu í dag, en þetta kast tryggði mér þó þátttökurétt á heimsmeistaramótinu á næsta ári,“ sagði Ásdís, sem býst allt eins við því að kasta lengra á næstunni og horfir þar vitaskuld helst til Ólympíuleikanna í ágúst.
„Það er náttúrlega alveg frábært og vonandi kemst ég bara ofar,“ sagði Ásdís sem keppir á meistaramótinu á Laugardalsvelli um næstu helgi en það verður hennar síðasta mót áður en hún heldur til Peking.