Alþjóða ólympíusambandið tilkynnti í dag ákvörðun sína um að meina keppendum frá Írak þátttöku á Ólympíuleikunum sem fram fara í Peking í ágúst. Þetta gerir sambandið vegna pólitískra ráðninga í stöður ólympíusambands Íraks. Sex íraskir keppendur höfðu náð ólympíulágmörkum.
Forsaga málsins er sú að formanni íraska ólympíusambandsins og nokkrum öðrum meðlimum þess var rænt í júlí árið 2006. Ekkert hefur sést til þeirra síðan.
Írösk stjórnvöld segja starfsmönnunum hafa verið vísað frá vegna spillingar innan nefndarinnar. Í kjölfarið skipuðu stjórnvöld nýja nefnd en slíkt er ekki leyfilegt samkvæmt reglum alþjóða ólympíusambandsins því skipanir í ólympíunefndir eiga ekki að vera pólitískar.
„Við sendum bréf til íraskra stjórnvalda í dag og sögðum frá því að miðað við núverandi aðstæður sé ólíklegt að íraskir íþróttamenn keppi á leikunum í Peking,“ sagði Emmanuelle Moreau, talsmaður alþjóða ólympíusambandsins.
Hussein al-Amidi, formaður íraska ólympíusambandsins, segir írösku keppendurna vera gráti nær vegna tilkynningarinnar.
„Þetta er lokaákvörðun og engin leið til að áfrýja henni. Þetta þýðir að Írak tekur ekki þátt á Ólympíuleikunum. Þetta er áfall fyrir Írak og orðspor þjóðarinnar. Þeir íþróttamenn sem höfðu öðlast keppnisrétt hafa hringt í mig með grátstafinn í kverkunum. Þeir eru í uppnámi,“ sagði al-Amidi.
Í íraska hópnum eru tveir ræðarar, tveir hlauparar, bogamaður, lyftingamaður og júdókappi.