Alþjóða ólympíunefndin hefur svipt boðhlaupssveit Bandaríkjanna í 4x400 metra boðhlaupi gullverðlaunum, sem sveitin vann á ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Er þetta gert vegna þess að Antonio Pettigrew, einn úr sveitinni, viðurkenndi fyrir tveimur mánuðum að hafa neytt óleyfilegra lyfja.
Bandarískir hlauparar hafa á síðustu mánuðum verið sviptir átta ólympíuverðlaunum, þar af fernum gullverðlaunin, vegna lyfjamála sem komið hafa upp. Marion Jones var m.a. svipt þrennum gullverðlaunum og einum bronsverðlaunum eftir að hún viðurkenndi að hafa notað steralyf í aðdraganda leikanna í Sydney.
Pettigrew skilaði sjálfur gullverðlaunum sínum í júní sl. en hann viðurkenndi fyrir rétti í maí, að hafa notað vaxtarhormónalyf og önnur árangursbætandi lyf á árunum 1997-2003.
Fimm sveitarfélagar Pettigrews hafa nú einnig verið sviptir verðlaunum sínum. Þeir eru Michael Johnson og tvíburabræðurnir
Alvin og Calvin Harrison, sem hlupu í úrslitahlaupinu, Jerome Young og Angelo
Taylor sem hlupu í undanrásum.