Bandýmenn á leið í Evrópukeppni

Liðsmenn Bandýfélags Kópavogs á fullri ferð á æfingu.
Liðsmenn Bandýfélags Kópavogs á fullri ferð á æfingu. mbl.is/Ómar

Það kannast flestir við íþróttina bandý þó ekki fari mikið fyrir henni ef frá eru taldir stöku leikfimitímar í grunnskólum landsins. Nokkrir áhugamenn úr Bandýfélagi Kópavogs halda merki hennar þó á lofti með reglulegum æfingum og blása nú í lúðra fyrsta sinni og ætla í víking erlendis. Mótherjarnir félög að mestu skipuð landsliðsfólki og þess vegna brosa Íslendingarnir vel út í annað aðspurðir um möguleikana á mótinu.

„Nei, ég held að óhætt sé að fullyrða að við ríðum ekki mjög feitum hesti frá viðureignum okkar gegn liðunum á þessu móti,“ segir Hafsteinn Þór Einarsson, einn forsprakka Bandýfélags Kópavogs, sem á pappírum er eina löggilta bandýfélag Íslands og sem slíkt hið fyrsta sem fer utan til keppni.

 Þann þrettánda ágúst næstkomandi hefur liðið keppni í forkeppni Evrópumóts í greininni gegn félögum sem eiga sér langa sögu í bandý en greinin er ein sú allra vinsælasta í nágrannalöndum okkar og er til að mynda vinsælli en handknattleikur í Svíþjóð og reyndar má furðu sæta að íþróttin sé ekki vinsælli en raun ber vitni hér á Íslandi enda kostnaður við þátttöku nær enginn og nóg af íþróttahúsum til staðar í landinu.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Hafstein og umfjöllun um bandýíþróttina í 24 stundum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert