Ragnheiður: Ágætt sund

Ragnheiður Ragnarsdóttir.
Ragnheiður Ragnarsdóttir. mbl.is/Brynjar Gauti

Ragnheiður Ragnarsdóttir synti 100 metra skriðsund á Ólympíuleikunum í Peking í dag á 56,35 sekúndum og var 3/10 úr sekúndu frá Íslandsmeti sínu. Ragnheiður endaði í 35. sæti af alls 49 keppendum en millitími hennar eftir 50 metra var 27,02 sekúndur en Íslandsmet hennar í þeirri grein er 25,95 sek. Hanna Maria Seepala frá Finnlandi náði bestum tíma í undanrásunum eða 53,60 sek.

„Þetta var ágætt sund en ég fann samt fyrir því að ég stífnaði upp eftir 75 metrana. Ég finn að ég er betri í stuttu sprettunum og ég hlakka því til að takast á við 50 metrana á föstudag,“  sagði Ragnheiður við mbl.is rétt eftir sundið í dag en hún var ekkert ósátt við tímann sem var 29/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti hennar.

Ánægð með tímann

„Ég er bara ánægð með tímann, þetta er rétt við Íslandsmetið mitt og ég hafði ekki hugmynd um hvernig þetta myndi enda. Ég hefði alveg getað verið verri, en það jákvæða er að ég synti mun betur en í Aþenu þar sem að taugarnar fóru alveg í 100 metrunum og ég synti á 58,47 sek á þeim leikjum. Undirbúningurinn fyrir þessa leika og þá aðallega 100 metra sundið hefur verið svolítið sérstakur. Það hefur svo ekkert vantað en það voru þjálfaraskipti hjá mér og smá hik í undirbúningnum. Ég er samt sem áður sátt við stöðuna hjá mér fyrir 50 metrana og ég lít á 100 metra sundið sem „upphitun“ fyrir það sund,“ en Ragnheiður keppir í 50 metra skriðsundi á föstudag.

Hef alltaf getað brosað

Ragnheiður virtist kunna vel við sig á laugarbakkanum rétt áður en ræsirinn sagði sundkonunum að fara upp á pallana. „Ég hef alltaf getað brosað og haft gaman af lífinu rétt áður en ég keppi. Ég geri það til þess að minna mig á að ég er hérna til þess að hafa gaman að þessu en ekki til þess að sprengja mig á einhverju sem er ekki raunhæft. Ég er því ekkert að svekkja mig á þessu,“ sagði Ragnheiður Ragnarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert