Tíu Selfyssingar máttu sín lítils gegn Stjörnunni

Njarðvík vann góðan sigur á Haukum í kvöld.
Njarðvík vann góðan sigur á Haukum í kvöld. mbl.is/Eggert

Stjarnan vann í kvöld stórsigur á Selfossi, 6:1, og þar með munar aðeins þremur stigum á liðunum í baráttunni um að komast upp úr 1. deild karla í knattspyrnu í haust. Njarðvík kom sér úr fallsæti með 2:1 sigri á Haukum og KA og KS/Leiftur gerðu markalaust jafntefli.

Stjarnan komst í 1:0 á Stjörnuvelli með marki Þorvalds Árnasonar á sjöundu mínútu og skömmu síðar fékk Dusan Ivkovic að líta rauða spjaldið fyrir að brjóta á Stjörnuleikmanni sem var að sleppa í gegn. Stjarnan komst síðan í 2:0 með seinna marki Þorvalds en Selfyssingar minnkuðu muninn fyrir leikhlé.

Zoran Stojanovic kom Stjörnunni í 3:1 og þrátt fyrir tilraunir Selfyssinga til að minnka muninn voru það Garðbæingar sem skoruðu og Ellert Hreinsson bætti við tveimur mörkum með mínútu millibili þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Halldór Orri Björnsson innsiglaði svo sigurinn í uppbótartíma.

Rafn Markús Vilbergsson kom Njarðvíkingum yfir á heimavelli en Hilmar Rafn Emilsson jafnaði fyrir Hauka. Marko Moravic skoraði hins vegar sigurmark Njarðvíkur þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af leiknum. Njarðvík er þar með komið úr fallsæti í 10. sæti með 14 stig en Leiknir er stigi á eftir með leik til góða.

Loks skildu KS/Leiftur og KA jöfn á Siglufirði, 0:0, og er Tröllaskagaliðið þar með enn á botni deildarinnar með 11 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka