Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri Knattspyrnusambands Íslands segir það alrangt sem fram komi í fréttum að KSÍ sé óhagganlegt í þeirri afstöðu að ÍBV fái ekki að leika heimaleiki sína í úrvalsdeild, nema reist verði stúka fyrir sjö hundruð áhorfendur á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
„Það er alrangt að við séum að biðja um að það verði reist 700 manna stúka á vellinum. Það eru nú þegar sæti fyrir rúmlega 550 manns," sagði Þórir í samtali við mbl.is.
Þórir vildi ekki fara nákvæmlega út í hvaða skilyrði ÍBV þyrfti að uppfylla til að fá að spila heimaleiki sína á Hásteinsvelli. „Það er ákveðið leyfiskerfi í gangi, þeir stóðust leyfiskerfið í 1. deild en nú eru þeir að fara upp í Úrvalsdeild og það eru stífari kröfur þar," sagði Þórir að lokum.
Sjá viðtal við Elliða Vignisson bæjarstjóra í Vestmannaeyjum