Íslenski bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson gerði sér lítið fyrir og rotaði andstæðing sinn, hinn reynda brasilíska bardagakappa Iran Mascarenhas, í lok annarrar lotu á Adrenalínmótinu í blönduðum bardagaíþróttum í Kaupmannhöfn í gærkvöldi.
Mascarenhas, sem er þrítugur og hefur verið þjálfari hjá einum stærsta bardagaíþróttaklúbbi Danmerkur um nokkurra ára skeið, var talinn mun sigurstranglegri af dönskum fjölmiðlum, auk þess sem hann var á heimavelli.
En Íslendingurinn ungi vann dönsku íþróttahöllina á sitt band með frábærri frammistöðu og hundruð Dana tóku undir með rúmlega 20-30 Íslendingum sem voru komnir til að styðja Gunnar og hvöttu hann óspart með því að hrópa nafn hans og Íslands til skiptist.
Íslendingarnir sem voru í bolum sérmerktum Gunnari settu mikinn svip á keppnina og þegar Gunnar rotaði andstæðing sinn ætlaði allt um koll að keyra í höllinni.
Þetta var sjötti atvinnumannabardagi Gunnars sem er ósigraður á ferlinum.