Úkraína og Pólland munu í sameiningu halda Evrópumótið í knattspyrnu árið 2012 en þetta staðfesti Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, endanlega í dag. Efasemdir voru uppi um að allt væri á áætlun hjá löndunum tveimur en svo virðist nú vera.
Hvort sem það hefur haft einhver áhrif eða ekki sýnir könnun fyrirtækisins TSN OBOP frá því í ágúst að almenningssalerni í Póllandi eru með því sem næst besta móti. 87% salerna á hótelum, í verslunarkjörnum, á veitingastöðum og brautarstöðum reyndust uppfylla skilyrði um hreinlæti og aðbúnað.
Könnunin var gerð í fjórum af stærstu borgum Póllands, Varsjá, Poznan, Gdansk og Wroclaw, en í öllum þessum borgum fara fram leikir í Evrópumótinu 2012.
Helst var út á að segja salerni á brautarstöðum þrátt fyrir að þar þurfi yfirleitt að borga fyrir að gera þarfir sínar. 96% hótelsalerna reyndust hins vegar uppfylla allar kröfur.