Bridgelandsliðið á Ólympíumótið í Kína

Sverrir Ármannsson og Aðalsteinn Jörgensen spila við Matthías Imsland og …
Sverrir Ármannsson og Aðalsteinn Jörgensen spila við Matthías Imsland og Birki Jón Jónsson í dag.

Íslenska landsliðið í bridge heldur á morgun til Peking í Kína þar sem það keppir á Ólympíumótinu í hugaríþróttum, sem fram fara 3.-18. október.

Fjögur lið komast áfram úr hverjum riðli, en 71 þjóð tekur þátt í bridgekeppninni. Ísland er í riðli með Evrópu- og heimsmeisturum Noregs,  Póllandi sem hefur unnið til margra verðlauna á stórmótum undanfarin ár, Búlgaríu sem varð í fjórða sæti á HM, Nýja Sjálandi og Taiwan.

Landslið Íslands er skipað þeim Jóni Baldurssyni, Aðalsteini Jörgensen, Birni Eysteinssyni fyrirliða, Sverri Ármannssyni, Hrannari Erlingssyni og Sveini Rúnari Eiríkssyni. Í liðinu eru þrír fyrrverandi heimsmeistarar, þeir Jón, Aðalsteinn og Björn sem allir urðu heimsmeistarar í opnum flokki 1991 og í parasveitakeppni 1996. Þá varð Jón einnig heimsmeistari í einmenningi 1994.  Jón tekur á sama tíma auk þess þátt í HM í einmenningi ásamt 35 af bestu bridgespilurum heims.

Unglingalandslið Ísland spilar í sveita- og tvímenningskeppni á mótinu. Í því eru Inda Hrönn Björnsdóttir, Grímur  Kristinsson, Gabríel Gíslason, Jóhann Sigurðarson, Gunnar Björn Helgason, Örvar B. Óskarsson og Gísli Steingrímsson fyrirliði.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, Birkir Jón Jónsson alþingismaður og Matthías Imsland forstjóri Iceland Express skoruðu á landsliðið í spil í dag til að undirbúa það frekar fyrir átökin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert