Aðalstjórnir Ungmennafélagsins Fjölnis og Knattspyrnufélagsins Fram samþykktu í dag tillögu formanna beggja félaga um að skoðaðir verði möguleikar á samruna félaganna í eitt ungmenna- og íþróttafélag.
Skipaður verður sex manna vinnuhópur til þess að fara yfir málið á næstu vikum. Markmið vinnuhópsins er að setja saman viljayfirlýsingu um samruna, sem yrði lögð fyrir aðalstjórnir félaganna til samþykktar að viku liðinni og jafnframt að stýra samrunavinnu ef slík viljayfirlýsing yrði samþykkt.
Í greinargerð sem formenn félaganna, Ragnar Þórir Guðgeirsson og Steinar Þór Guðgeirsson, sendu frá sér í dag segir m.a. „Ljóst er að breytingar í efnahagslífinu munu á næstunni hafa áhrif á rekstur íþróttafélaga eins og annarra þjónustuveitenda í þjóðfélaginu. Formenn félaganna sjá mikil tækifæri fólgin í því að bæta rekstur íþróttastarfsins með aukinni faglegri stjórnun en slíkum árangri mætti betur ná með stækkun starfssvæðisins. Fram hefur fengið úthlutað stóru svæði til uppbyggingar í Úlfarsárdal og ljóst er að Fjölnir hefur á liðnum árum þjónað þeirri byggð sem er í Grafarholti varðandi ýmsar íþróttagreinar. Fjölnir er þegar með 10 deildir sem er nauðsynlegt í stóru hverfi en slík uppbygging bíður Fram á næstu árum að óbreyttu. Formennirnir eru því sammála um að skynsemi felist í að skoða nánar mögulega sameiningu félaganna, þar sem það geti orðið til að hraða uppbyggingu mannvirkja, treysta rekstrargrunninn og til þess fallið að styrkja faglegt starf jafnframt sem það er augljós hagræðing og samlegðaráhrif við uppbyggingu íþróttamannvirkja í hverfum félaganna. Formennirnir telja stjórnirnar sýna ábyrgð og fyrirhyggju með því að vinna að þessu verkefni nú þegar harðnar á dalnum á mörgum sviðum íslensks þjóðlífs.“