Reykjavíkurfélögin Fram og Fjölnir hafa skipað sex manna vinnuhóp sem ætlað er að kanna möguleika á samruna félaganna.Verði það niðurstaðan mun félagið senda eitt lið til keppni í Landsbankadeildinni næsta sumar og þá mun Selfoss koma upp í þá deild.
Umræða um sameiningu félaganna hefur verið í gangi síðustu misseri og sjá stjórnir félaganna mikil tækifæri fólgin í samruna, ekki síst eftir að Fram var úthlutað stóru landsvæði í Grafarholti.
„Við í Fjölni erum með tíu deildir í okkar félagi á meðan Fram á eftir að byggja upp fjölgreinastarfsemi í sínu hverfi. Á móti kemur að Fram er lengra komið í framkvæmdaundirbúningi en okkur vantar meira pláss fyrir okkar uppbyggingu. Við sjáum því gríðarleg tækifæri í sameiningu,“ sagði Ragnar Þórir Guðgeirsson formaður aðalstjórnar Fjölnis í gær.
„Við ætlum að gefa okkur viku núna í að kortleggja helstu atriði sem samningar þurfa að nást um. Svo stefnum við á að geta lagt fram viljayfirlýsingu fyrir stjórnir félaganna að viku liðinni. Félagsfundir beggja félaga þurfa svo að samþykkja samrunann til að af honum yrði, og það yrði í fyrsta lagi í lok nóvember,“ sagði Ragnar.