Ef af sameiningu Fram og Fjölnis verður og liðin renna saman í eitt í úrvalsdeild karla í knattspyrnu sumarið 2009, hefur það keðjuverkandi áhrif á færslur á milli allra deilda á Íslandsmótinu og þrjú lið munu þá færast upp um deild.
Selfyssingar enduðu í 3. sæti 1. deildar, á eftir ÍBV og Stjörnunni, og þeir fá sætið sem losnar í úrvalsdeildinni ef af sameiningunni verður.
Víðir úr Garði hafnaði í þriðja sæti 2. deildar, á eftir ÍR og Aftureldingu, og myndi þá fylgja þeim uppí 1. deildina og taka sæti Selfyssinga þar.
KV, eða Knattspyrnufélag Vesturbæjar, hafnaði í þriðja sæti 3. deildar, á eftir Hömrunum/Vinum og BÍ/Bolungarvík, og færi ásamt þeim uppí 2. deild ef áformin um sameiningu ganga eftir.
Sameiningin myndi ekki hafa áhrif á Íslandsmótið í kvennaflokki því Fram hefur ekki teflt fram meistaraflokksliði þar og Fjölnir féll úr úrvalsdeildinni í haust.