Einn mikilvægasti leikur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu frá upphafi verður ekki sýndur í sjónvarpi. Þetta staðfesti Hrafnkell Kristjánsson, íþróttafréttamaður RÚV.
Leikurinn er fyrri umspilsleikur um sæti á EM við Írland í Dublin á sunnudag. Hrafnkell segir þó allt hafa verið reynt. „Við erum búin að reyna allt sem mögulegt er en það vill bara enginn taka upp leikinn. Við höfum skoðað allar leiðir sem mögulegt er að fara.“
Leiknum verður þó lýst í útvarpi og seinni leikurinn, sem fram fer á Íslandi næstkomandi fimmtudag, verður að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu.