Á morgun, laugardag, verður akstursíþróttamaður ársins 2008 útnefndur en kjörinu verður lýst á lokahófi Akstursíþróttanefndar ÍSÍ og LÍA, landssambands íslenskra akstursíþrótta á Akureyri.
Veitt verða Íslandsmeistaraverðlaun í öllum flokkum auk þess sem Akstursíþróttamaður ársins verður krýndur, en átta afreksmenn úr spyrnu, torfæru, ralli og brautarkappakstri eru útnefndir. Þeir sem eru útnefndir eru: Björgvin Ólafsson og Guðmundur Jóhannsson í Spyrnu, Ólafur Bragi Ólafsson og Ragnar Róbertsson í Torfæru, Ísak Guðjónsson og Pétur S. Pétursson í Ralli og Viktor Þór Jensen og Kristján Einar Kristjánsson í Brautarkappakstri.
Spyrna
Björgvin Ólafsson hóf keppni 1994 eftir að
hafa starfað við keppnishald um árabil, aðallega með Bílaklúbbi Akureyrar.
Hann
á að baki ýmsa titla í spyrnu og í sumar skilaði hann þeim einstaka árangri að
sigra allar keppnir sem hann tók þátt í og lauk keppnistímabilinu með nýju
íslandsmeti í götuspyrnu og sandspyrnu og Íslandsmeistaratitli í báðum greinum.
Guðmundur Jóhannsson byrjaði að keppa í
kvartmílu 2007 og náði Íslandsmeistara titlinum í Götubílaflokki 2008.
Hann
sýndi fádæma framfarir allt kepnistímabilið og sigraði í 4 keppnum af 5, auk
þess sem hann setti fjögur Íslandsmet á árinu. Guðmundur sigraði einnig í 4x4
flokknum á Bíladögum á Akureyri.
Torfæra
Ólafur Bragi Ólafsson keppir Torfærunni í
flokki sérútbúinna bíla (Unlimited Class). Hann hóf keppti fyrst árið 2006 á
bíl sínum "Refnum" og lauk þá keppnistímabilinu í 6. sæti.
Ári síðar
mætti hann margefldur til leiks og hafnaði í 2. sæti og hampaði loks
Íslandsmeistaratitlinum þegar keppnistímabilinu lauk í ár.
Ragnar Róbertsson, þrefaldur Íslandsmeistari í
torfæru, keppti í "Modified Class" flokki breyttra götujeppa á
"N1 Willys" bíl sem hann smíðaði 1999. Ragnar tók þátt í 11 keppnum í
ár og sigraði allar nema eina sem hann lauk í 2. Sæti.
Hann keppti í Noregi,
Finnlandi, Svíþjóð og í þremur keppnum á Íslandi og lauk keppnistímabilinu sem
Heimsbikarmeistari, Norðurlandameistari og Noregsmeistari í greininni
Rall
Ísak Guðjónsson er Íslandsmeistari í ralli sem
aðstoðarökumaður og að margra mati talinn besti aðstoðarökumaður Íslands í
gegnum tíðina.
Hann hefur keppt hér heima með Sigurði Braga Guðmundssyni
Íslandsmeistara 2008 og enfremur tekið þátt í erfiðum rallkeppnum erlendis sem
aðstoðarökumaður hjá öðrum Íslandsmeistara í greininni Daniel Sigurðssyni.
Pétur S. Pétursson átti við ofurefli að etja
þegar hann hóf keppnisárið á miklu öflugri bíl en hann hafði áður keppt á.
Bæði Sigurður Bragi Guðmundsson og Jón Bjarni
Hrólfsson höfðu meiri reynslu og voru í sérflokki yfir heildina séð. Pétur sýndi þó fljótlega svipaðann hraða og
var þarmeð kominn í þennann „sérflokk“
sem skar sig afgerandi frá öðrum keppendum. Fádæma góð frammistaða ásamt undirbúningi
fyrir keppnistímabilið skapaði glæsilegan árangur og 2. sæti í
Íslandsmeistaramótinu.
Brautarkappakstur
Kristján Einar Kristjánsson náði þeim einstaka
árangri að fara sem Íslandsmeistari í karti í prófanir fyrir byrjunarformúlu
FMBW í Bretlandi en enda í keppnissæti meistaraliðsins Carlin Motorsport í
Bresku formúlu 3.
Þar keppti hann á móti ökumönnum með 3-6 ára forskot í
formúlukappakstri. Kristján Einar keppti í landsflokki BF3 og tók sín fyrstu
verðlaun á þriðju keppnishelgi mótaraðarinnar á F1 brautinni á Monza. Hann var
4. í stigakeppni ökumanna fram á mitt keppnistímabil en missti dýrmæt stig í
framhaldi af árekstri í götukappakstrinum í Búkarest og lauk keppnistímabilinu
í 7. sæti af 15 keppendum.
Viktor Þór Jensen keppti í Alþjóðaflokki
Bresku Formúlu 3 í ár, en hann ók í landsflokki mótaraðarinnar í fyrra.
Hann
mætti til leiks þegar ein keppnishelgi var búin og ók með Nexa liðinu sem er
nýtt í BF3. Tæknilegir örðugleikar hjá liðinu sem er nýtt í BF3 settu mark sitt
á keppnisárið og Viktor Þór hætti keppni eftir kappaksturinn á Brands Hatch um
mitt tímabilið og tilkynnti að hann hygðist einbeita sér að næsta
keppnistímabili. Hann lauk keppnistímabilinu í 19. sæti af 21 keppanda.