Evrópumóti skákfélaga í Grikklandi er nú lokið. í sjöundu og síðustu umferð vann Taflfélag Bolungarvíkur sigur á Albanska liðinu Butrinti Sarande, með fjórum vinningum gegn tveimur en Taflfélag Hellis tapaði fyrir frændum okkar Svíum, í liðinu SK Rockaden Stockholm; fengu 1 1/2 vinning gegn 4 1/2. Hellismenn enduðu því í 52. sæti með fimm stig og 15 vinninga, meðan Bolvíkingar náðu 36. sæti með sjö stig og 18 vinninga, en alls tóku 64. lið þátt í mótinu. Sigurvegari mótsins var Rússneska liðið URAL Sverdlovskaya.
Guðmundur Gíslason, sem teflir fyrir lið Bolungarvíkur, náði fyrsta áfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli á mótinu, en hann náði fjórum vinningum af sjö. Til þess að verða alþjóðlegur meistari þarf að ná þremur áföngum og 2400 ELO-stigum, en Guðmundur tefldi í sínum sjö skákum af styrkleika sem nemur 2480 ELO-stigum og þarf því aðeins tvo áfanga í viðbót til að verða alþjóðlegur meistari, en íslendingar eiga fyrir 11 alþjóðlega meistara frá upphafi.