„Ísland hafði náttúrlega aldrei náð þessum árangri fyrir síðasta Evrópumót og hann er rosalega góður, en við vitum alveg fyrir hvað þessar stelpur standa. Gerpla er orðin mjög þekkt stærð í hópfimleikaheiminum,“ sagði Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri fimleikafélagsins Gerplu, í gær, en þá heiðraði félagið kvennalið sitt sem vann til silfurverðlauna á Evrópumóti í hópfimleikum í Belgíu um síðustu helgi.
Hópfimleikar eru í mikilli sókn um allan heim og ljóst að lið Gerplu skipar sér þar í fremstu röð. Gerpla er ríkjandi Norðurlandameistari og vann einnig til silfurverðlauna á EM fyrir tveimur árum, en það var í fyrsta skipti sem íslenskt lið hlýtur verðlaun á því móti.
„Þessi árangur núna hefur ekki komið okkur á óvart því við vitum hvað við erum með í höndunum,“ sagði Auður Inga, og Ásdís Guðmundsdóttir, einn silfurverðlaunahafanna, tekur í svipaðan streng.
Sjá ítarlega frásögn, viðtöl og myndir við Gerplustúlkurnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.