,,Þetta var eins og vel skrifuð bók. Það gekk allt eins og í sögu og ég og mínir góðu aðstoðarmenn erum mjög ánægðir,“ sagði Kristinn Jakobsson við Morgunblaðið í gær en í fyrrakvöld skrifaði hann nýjan kafla í sögu íslenskra knattspyrnudómara.
Kristinn dæmdi leik Shaktar Donteskt og Basel í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og varð fyrsti Íslendingurinn til að dæma í riðlakeppni í þessari „sterkustu deild“ í heimi.
,,Það var engin spurning með eitt eða neitt í leiknum. Ég gaf eitt gult spjald sem var verðskuldað en leikurinn var prúðmannlega leikinn og var í öruggum höndum okkar,“ sagði Kristinn en Shakhtar Donetsk vann stórsigur, 5:0, og tryggði sér þátttökurétt í UEFA-bikarnum. Aðstoðarmenn Kristins í leiknum voru Sigurður Óli Þórleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson og fjórði dómari var Magnús Þórisson.
,,Það var geysilega góð stemning á vellinum. Ég vil ekki gera lítið úr UEFA-bikarnum en að dæma í Meistaradeildinni er svo miklu meira og stærra í sniðum. Það var ógrynni af blaða- og fréttamönnum og örugglega um 20 sjónvarpsmyndavélar. Maður kemur aldrei til með að gleyma þessum viðburði,“ sagði Kristinn, sem fékk mjög góða umsögn frá dómaeftirlitsmanni leiksins.
Sjá ítarlegra viðtal við Kristin í Morgunblaðinu í dag.