Björgólfur af stað með KR-ingum

Björgólfur Takefusa, er farinn að æfa á ný með KR.
Björgólfur Takefusa, er farinn að æfa á ný með KR. Jim Smart

Björgólfur Takefusa er byrjaður að æfa með KR-ingum á nýjan leik og vonast Logi Ólafsson, þjálfari bikarmeistaranna, til þess að hann verði með liðinu í sumar. Björgólfur æfði ekkert með Vesturbæjarliðinu í nóvember og desember og lét framherjinn í veðri vaka að hann væri hættur en í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Logi að vonandi hefði Björgólfi snúist hugur.

Björgólfur skoraði 14 mörk í 20 leikjum KR-inga í Landsbankadeildinni síðastliðið sumar og endaði sem annar markahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Guðmundi Steinarssyni.

Hafa misst fjóra sterka

KR-ingar hafa orðið fyrir töluverðri blóðtöku. Guðjón Baldvinsson og Guðmundur Reynir Gunnarsson eru gengnir til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið GAIS, Viktor Bjarki Arnarsson er kominn aftur til Lilleström í Noregi og Pétur Hafliði Marteinsson er hættur en allir léku þessir leikmenn stórt hlutverk með KR-liðinu á síðustu leiktíð.

Á móti hafa KR-ingar fengið Guðmund Benediktsson frá Val og Gunnar Kristjánsson frá Víkingi en báðir hafa leikið með KR-liðinu áður. Logi reiknar ekki með að fleiri leikmenn bætist í hópinn en efnahagskreppan kemur við knattspyrnulið landsins eins og alls staðar og má reikna með félagaskiptin verði með færra móti í ár og sérstaklega mun draga úr komu erlendra leikmanna til landsins. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert