Janka fagnaði sigri í stórsviginu

Carlo Janko.
Carlo Janko. Reuters

Carlo Janka frá Sviss sigraði í dag í stórsvigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum í Val D'Isere í Frakklandi og eru þetta önnur verðlaun hans á HM í ár. Janka, sem er 22 ára gamall, varð þriðji í brunkeppninni en gullverðlaun hans í stórsviginu eru önnur gullverðlaun Svisslendinga á HM.

Benjamin Raich frá Austurríki varð annar  0,71 sekúndum á eftir Janka en þetta eru fyrstu verðlaun Austurríkismanna á HM. Bandaríkjamaðurinn Ted Ligety varð þriðji 0,99 sekúndum á eftir Janka sem kom í mark á 2.18,82 mínútum.

Illa gekk hjá íslensku skíðaköppunum en þeir féllu báðir úr brautinni í fyrri ferðinni

Björgvin Björgvinsson frá Dalvík var með rásnúmer 38 og féll hann snemma úr leik. Stefán Jón Sigurgeirsson fór sömu leið, hoppaði uppúr skíðunum í töluverðum bratta, þar sem brautin var illa farin, en hann ræsti númer 74 af 75 keppendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert