110 ára afmælishátíð hjá KR

110 ára afmælisútgáfa af merki KR.
110 ára afmælisútgáfa af merki KR. mbl.is

Knattspyrnufélag Reykjavíkur heldur upp á 110 ára afmæli sitt í dag 16. febrúar í hófi í KR heimilinu í Frostaskjóli. Auk hófsins, sem hefst kl. 17, er ætlunin að minnast afmælisins með veglegri fjölskylduhátíð í Vesturbænum í samvinnu við Vesturgarð, laugardaginn 6. júní, og með afmælishátíð 3. október.

KR er elsta knattspyrnufélag landsins og elsta samfellt starfandi íþróttafélagið. Í bókinni ,,Fyrsta öldin-saga KR" er líkur leiddar að því að aðdragandi stofnunarinnar hafi verið að áhugasamir drengir um knattspyrnu í vesturbænum hafi bundist samtökum um að kaupa bolta og annað til knattspyrnuiðkunar.
Hafi drengirnir stofnað félagið í verslun Guðmundar Olsens í Aðalstræti.

Félagið hét fyrstu árin Fótboltafélag Reykjavíkur, enda orðið ,,knattspyrna" ekki til í íslensku máli. Ekki eru heimildir um að drengirnir hafi kosið sér formlega stjórn en Þorsteinn Jónsson tók að sér nauðsynlegar framkvæmdir eins og að panta fótbolta frá fyrirtæki í Liverpool, og er hann talinn fyrsti formaður félagsins. Þorsteinn og bróðir hans, Pétur A. Jónsson, óperusöngvari, voru meðal stofnenda félagsins. Samkvæmt heimildum er stofndagur félagsins talinn vera 16. febrúar 1899.

Ekki var mikið um opinbera knattspyrnuleiki á þessum árum og af frásögn í Ísafold 1903 segir af leik sem virðist milli tveggja liða, sem bæði voru skipuð KR-ingum. Fyrirliðar voru bræðurnir Pétur og Þorsteinn Jónssynir. Frásögn Ísafoldar er á þessa leið:

,,Þegar veðreiðunum var lokið var leikinn fótboltaleikur eða sparkhnöttur. Sá leikur er enn lítt þekktur hér á landi en þyrfti að verða almennur. Leika hann tveir hópar, 11 manns í hvorum, á ferhyrndu svæði; eru hlið á báðum endum svæðisins og reynir hvor flokkurinn um sig að koma (sparka) hnettinum gegnum hliðið sem er að baki hins flokksins og á hann að verja; að koma hnettinum í gegnum hliðið er vinningur. Hnettinum er aðeins sparkað en hvorki kastað né sleginn."

1908 komu loks til sögunnar andstæðingar í öðrum félögum er Fram og Víkingur voru stofnuð, 1911 batnaði aðstaðan til knattspyrnuiðkunar mikið með vígslu Melavallarins, sem KR-ingar höfðu haft frumkvæði að og rutt svæði á Melunum undir völlinn. Við það tækifæri kepptu KR og Fram og eru heimildir ekki sammála um úrslit. Á einum stað er sagt að leikurinn hafi verið ,,óútkljáður" en aðrar heimildir herma að KR hafi unnið 2-1.

Árið eftir var fyrsta Íslandsmótið, þá tóku þátt KR, sem hét raunar enn Fótboltafélag Reykjavíkur, Fram og lið úr Vestmannaeyjum. KR-ingar urðu fyrstu Íslandsmeistararnir.

Dagskrá afmælishátíðarinnar í dag:

17:15                 Form. afmælisnefndar, Bogi Ágústsson, opnar hátíðina
17:20                 Ávarp formanns KR, Guðjóns Guðmundssonar
17:25                 Heiðursviðurkenningar frá KR til félagsmanna
                         fyrir 10 ára, 20 ára og 25 ára starf og keppni
17:45                 KR og KR-ingurinn, sögulegt yfirlit, Ellert B. Schram

18:00                 Veitingar

18:15                 Kveðjur til KR og viðurkenningar til KR-inga frá sérsamböndum og sérráðum
18:45                 Söngur - Gissur Páll Gissurarson
19:00                 Formlegri afmælishátíð slitið





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka