Búlgarar gjörsigraðir á HM

Íslenska landsliðið í íshokkí, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tryggði sér í dag næsta auðveldlega sigur á Búlgörum í undanúrslitum 3.deildar á heimsmeistaramóti sem nú fer fram í Erzurum í Tyrklandi. Leikurinn endaði 15 – 2 íslenska liðinu í vil en leikhlutar fóru 4:1, 4:1, 7:0. Þetta er annar sigur íslenska liðsins á því búlgarska í keppninni að þessu sinni. Fyrri leikurinn endaði, 11:0, fyrir Ísland.

Einsog tölurnar gefa til kynna hafði íslenska liðið mikla yfirburði og átti í leiknum fimm sinnum fleiri skot á mark en andstæðingarnir. Íslenska liðið spilaði agaðan leik og allir leikmennirnir lögðu sitt af mörkum. Þetta sést best á því að í þetta sinn eru stoðsendingarnar fleiri en mörkin en í íshokkí eru tvær síðustu stoðsendingar fyrir mark taldar.

Liðin sem keppa á mótinu áttu í upphafi að vera fimm, þ.e. Ísland, Búlgaría, Írland, Tyrkland og Ísrael en þeir síðastnefndu treystu sér ekki í mótið vegna staðsetningar þess. Ísraelsmenn voru það lið sem líklegast var til að standa upp í hárinu á íslenska liðinu í keppninni en karlalið þessara þjóða eru áþekk að getu.

Íslenska liðið mun á sunnudaginn við sigurvegarann úr leik Tyrklands og Írlands um gullið og sæti í 2. deild að ári. Þess má geta að mikill getumunur er milli deilda í þessum mótum og verður því spennandi að sjá hver frammistaða íslenska liðsins verður á næsta ári.   


Mörk/stoðsendingar Íslands:

Egill Þormóðsson 3/3
Gunnar Darri Sigurðsson 2/3
Ólafur Hrafn Björnsson 2/2
Björn R. Sigurðarson 2/2
Arnar Bragi Ingason 2/0
Snorri Sigurbjörnsson 2/0
Hilmar Leifsson 1/1
Óskar Grönholm 1/0
Jóhann Leifsson 0/2

Róbert F Pálsson 0/1
Kristján Gunnlaugsson 0/1
Sigursteinn A Sighvatsson 0/1
Tómas T. Ómarsson 0/1

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert