Taflfélag Bolungarvíkur sigraði á Íslandsmóti skákfélaga sem fram fór á Akureyri um síðustu helgi. Það er ekki á hverjum degi sem Bolvíkingar eignast Íslandsmeistara, en þetta var í fyrsta skipti sem félag af landsbyggðinni hlýtur þessa nafnbót í íþróttinni.
Bolvíkingar rúlluðu upp 1. deildinni með 44,5 vinning alls, en í öðru sæti varð Taflfélagið Hellir, með 35,5 vinning og í þriðja sæti lenti Taflfélag Fjölnis með 33 vinninga.
Bolvíkingar sigruðu einnig í þriðju deild og voru sannarlega sigurvegarar helgarinnar.
„Þetta gekk allt mjög vel. Okkur gekk líka vel í þriðju deildinni og á næsta ári verðum við með lið í öllum deildunum fjórum. Við erum auðvitað mjög stoltir af þessum árangri og vonum að þetta auki áhugann á skákinni enn frekar á vestfjörðum,“ sagði Guðmundur Daðason, formaður Taflfélags Bolungarvíkur.
Bolvíkingar hafa eflt skákina mjög á undanförnum árum og segir Guðmundur það nú hafa skilað árangri. „Það er ekkert launungarmál að við höfum fengið fjóra erlenda stórmeistara til liðs við okkur á mótum, sem við höfum borgað sérstaklega fyrir. Það má því alveg segja að við höfum keypt titilinn, en við skömmumst okkar ekkert fyrir það, enda hafa öll félögin gert slíkt hið sama, með einum eða öðrum hætti. Hinsvegar verður þetta ekki í jafn miklum mæli hjá okkur næstu árin, en samfara þessu höfum við einnig sett pening í uppbyggingu starfsins og horfum við nú meira til slíkrar eflingar fyrir vestan,“ sagði Guðmundur.