Andrés önd kominn á kreik

Heiðbjört Einarsdóttir frá Mývatni leggur af stað í svigkeppni 9 …
Heiðbjört Einarsdóttir frá Mývatni leggur af stað í svigkeppni 9 ára í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Andrésar andar leikarnir á skíðum hófust í Hlíðarfjalli við Akureyri í morgun í blíðskaparveðri. Að þessu sinni eru 792 keppendur eru skráðir til leiks, 102 í göngu og 690 í alpagreinum.

Dagný Linda Kristjánsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari, setti leikana í gærkvöldi við hátíðalega athöfn í Íþróttahöllinni og hvatti keppendur til dáða. Skrúðganga var að vanda frá KA-heimilinu að Höllinni; keppendur, fararstjórar, þjálfarar og ættingjar gengu fylktu liði og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri en talið er að í Höllinni  hafi verið um 2.200 manns.

Dagný Linda sagði í ræðu sinni að það, að vera þátttakandi á Andrésar andar leikunum, væri ekki ósvipað því að vera keppandi á Ólympíuleikum, það væri þátttakan sem skipti máli og allir skyldu vera stoltir af því. 

Karl Frímannsson skólastjóri og skíðamaður var með hugvekju og sagði að þeir sem tæku þátt í skipulegri íþróttastarfssemi byggju að því alla tíð. Hann hvatti jafnframt alla til dáða og bað fólk um að njóta dagana sem framundan væru.

Keppni fer fram í dag, á morgun og þar til síðdegis á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert