Inga Elín setti sitt fyrsta Íslandsmet

Inga Elín Cryer.
Inga Elín Cryer. mbl.is

Inga Elín Cryer, 15 ára gömul sundkona frá Akranesi, setti í morgun sitt fyrsta Íslandsmet í flokki fullorðinna þegar hún kom fyrst í mark í 400 m fjórsundi á Smáþjóðaleikunum á Kýpur. Inga Elín synti á 5.03,56 mínútum og bætti átta ára gamalt met Láru Hrundar Bjargardóttur um fjórðung úr sekúndu. Sigur Ingu Elínar var öruggur því næsta sundkona synti á 5.05,82.

Þetta eru um leið fyrstu gullverðlaun Ingu Elínar á Smáþjóðaleikunum en sundkeppni þeirra lauk rétt áðan. Auk þess að setja Íslandsmet bætti hún Smáþjóðaleikametið en Íslandsmet Láru Hrundar var jafnframt gildandi leikamet.

Annað Íslandsmet féll í sundkeppninni í morgun þegar sveit Íslands í 4x100 m skriðsundi kom í mark á 3.52,06 og bætti met íslensku sveitarinnar frá sem keppti á Smáþjóðaleikunum fyrir tveimur árum um nærri tvær og hálfa sekúndu. Sveitin setti um leið leikamet en hún var skipuð Ragnheiði Ragnarsdóttur, Söruh Blake Bateman, Ingibjörgu Jónsdóttur og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur.

Sindri Þór Jakobsson vann öruggan sigur í 1.500 m skriðsundi karla en það er ekki á hverjum degi sem íslenskir sundmenn vinna langsund á erlendum mótum. Sindri synti vegalengdina á 16.17,74 mínútum og var um 20 sekúndum frá Íslandsmeti Ragnars Guðmundssonar sem hann setti á Ólympíuleikunum í Seoul fyrir 21 ári. Sindri kom í mark um 10 sekúndum á undan næsta keppanda.

Fjórðu gullverðlaun Íslands á lokadegi sundkeppninnar í morgun unnust í 4x100 m skriðsundi karla. Þar kom íslenska sveitin hálfri fjórðu sekúndu á undan sveit Mónakó í mark á 3.28,80 en var nokkuð frá Íslandsmeti. Sveitina skipuðu þeir Bragi Þorsteinsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Birkir Már Jónsson og Árni Már Árnason.

Sigrún Brá Sverrisdóttir kom þriðja í mark í 800 m skriðsundi á 9.15,67 mínútum þar sem Julia Hässler frá Liechtenstein vann með yfirburðum. Sigrún Brá var um 15 sekúndum frá eigin Íslandsmeti sem hún setti í Laugardalslaug í mars.

Bringusundskappinn, Jakob Jóhann Sveinsson, hafnaði í þriðja sæti í 400 m fjórsundi á 4.41,15 mínútum. Það er um tíu sekúndum frá Íslandsmet Arnar Arnarsonar. Radphael Stacchiotti frá Lúxemborg kom fyrstur í mark á 4.28,78 og setti leikamet.

Stór hópur fólks hefur fylgst með sundkeppni Smáþjóðaleikana og ekki …
Stór hópur fólks hefur fylgst með sundkeppni Smáþjóðaleikana og ekki hefur veðrið spillt fyrir ánægjunni. heimasíða Smáþjóðaleikana
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert