„Ég er mjög kátur með silfrið, þótt ég hefði viljað fá gullið, en ég verð stundum að sætta mig við að tapa,“ segir Gunnar Nelson, sem varð í öðru sæti í millivigt á heimsmeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu í Los Angeles um helgina.
Í apríl sl. vann Gunnar til gull- og bronsverðlauna á Opna New York-meistaramótinu í jiu-jitsu og bætti nú silfri í safnið. Rúmlega 40 keppendur voru í millivigt með brúnt belti og segir Gunnar að hann hafi verið mjög nálægt sigri í úrslitaglímunni, en á leiðinni þangað hafði hann meðal annars betur gegn heimsmeistaranum Ryan Beauregard. Hann tapaði hins vegar fyrir honum í opnum flokki. „Það munaði engu að ég næði honum í lás, þegar um hálf mínúta var eftir af glímunni, en hann komst úr lásnum, fékk tvö stig og vann á þeim,“ segir Gunnar um úrslitaglímuna við Brasilíumanninn Gabriel Goulart.
Gunnar segir að árangurinn opni sér nýja möguleika og þá ekki síst á mót, þar sem keppt sé í blandaðri bardagalist (MMA). „Ég hefði gaman af því að keppa á heimsmeistaramótinu næsta ár en takmarkið hjá mér er að verða heimsmeistari í blandaðri bardagalist,“ segir hann.