Helga Margrét Þorsteinsdóttir setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í sjöþraut í dag þegar hún fékk 5.878 stig á fjölþrautamótinu sem nú stendur yfir í Kladno í Tékklandi. Hún er jafnframt komin í efsta sæti heimslista unglinga 19 ára og yngri en var aðeins 22 stigum frá því að ná lágmarki fyrir heimsmeistaramót fullorðinna.
Helga hljóp 800 metrana, síðustu greinina í sjöþrautinni, á 2:16,42 mínútum sem er hennar besti árangur. Fyrra Íslandsmet hennar var 5.721 stig og það setti hún á Norðurlandamótinu í Kópavogi um fyrri helgi. Í dag bætti hún það um 157 stig.
Helga, sem er aðeins 17 ára gömul, fær eitt tækifæri enn til að vinna sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu en hún keppir á Evrópumóti unglinga í Serbíu 23.-26. júlí.
Fyrir mótið í Kladno var Helga næstefst á heimslista unglinga en hún fór uppfyrir Vanessu Spinolu frá Brasilíu sem hefur náð 5.763 stigum.