Sjöþrautarstúlkan Helga Margrét Þorsteinsdóttir er án efa „heitasta“ íþróttakona landsins um þessar mundir. Hún varð Norðurlandameistari í fjölþraut fyrr í mánuðinum er hún setti Íslandsmet í sjöþraut. Í gær bætti hún enn Íslandsmetið sitt á móti í Tékklandi, um heil 157 stig, og er nú efst á heimslista unglinga en aðeins vantaði 22 stig uppá að hún næði lágmarkinu á heimsmeistaramót fullorðinna.
Helga, sem er aðeins 17 ára, sagði sigurtilfinninguna vera súrsæta. „Já, þetta er svolítið öfugsnúin og súrsæt tilfinning. Ég var að bæta mig mikið og allt var að ganga upp, en síðan eru það þessi 22 stig sem vantaði upp á sem hanga yfir manni. En þau koma bara seinna, ég er alveg sátt við mitt. En þetta er óneitanlega svolítið svekkelsi í himnaríki. En vonandi er þetta ekki búið spil, ég tel mig nú eiga eitthvað inni ennþá,“ sagði Helga Margrét í gær, er hún beið þess að vera kölluð upp í verðlaunaafhendingu en gaf sér þó tíma fyrir Morgunblaðið.
Sjá nánar viðtal við Helgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er einnig rætt við þjálfara hennar, Stefán Jóhannsson.