Ósáttir við ferðatilhögun dómara

mbl.is

ÍBV hefur óskað eftir skýringum á ferðatilhögun dómara á leiki í Vestmannaeyjum. Dómarar leiks sem spilaður var um helgina ferðuðust með flugvél sem FH tók á leigu en KSÍ borgaði fyrir sæti þeirra. ÍBV segist þó ekki kenna dómurunum um úrslit leiksins. Leikurinn fór 0-3, FH í vil.

Fréttavefurinn Eyjafréttir.is greinir frá því að forráðamenn knattspyrnudeildar ÍBV hafi óskað eftir svörum frá KSÍ vegna ferðatilhögunar dómara í leiki í Vestmannaeyjum. Dómaratríó leiksins ferðaðist til og frá Eyjum í flugvél sem FH tók á leigu en KSÍ keypti sæti í vélinni fyrir dómaratríóið og eftirlitsdómara.

Forráðamenn ÍBV leggja áherslu á að þeir kenni dómurum ekki um úrslit leiksins í gær en segjast þó ósáttir við lykilákvarðanir þeirra í leiknum. Þeir benda á að líklega hefði flugferðin heim ekki verið þægileg ef FH-ingar hefðu verið ósáttir við ákvarðanir þeirra.

„Að dómarar leiksins skuli ferðast með leikmönnum, þjálfurum, forsvarsmönnum og stuðningsmönnum annars liðsins á leikstað er með öllu óskiljanlegt. Slíkt býður upp á tortryggni í garð dómara og ekki til þess gert að auðvelda þeirra starf. Það hlýtur að hafa verið í undirmeðvitund dómarans í leiknum sjálfum að hann ætti eftir að ferðast með liðinu, stuðningsmönnum, þjálfurum og stjórnarmönnum til baka eftir leik. Sennilega væri það ekki skemmtilegt fyrir þá svartklæddu ef sá 50 manna hópur væri ósáttur við dómgæsluna í leiknum. Dómararnir eru jú bara mannlegir" segir í bréfi ÍBV til KSÍ sem Eyjafréttir.is hafa undir höndum.

Forráðamenn ÍBV taka fram í bréfinum að málið hafi eftir leik verið borið undir eftirlitsmann KSÍ, Kára Gunnlaugsson. Í bréfinu segir að Kári hafi bent ÍBV á að svona væri farið að með ferðir dómara í nánast öll skipti þegar leikir færu fram á Akureyri og það væri hreinn og klár barnaskapur af hálfu ÍBV að setja út á þetta.

Sjá meira á vef Eyjafrétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert