Jóhanna Ingadóttir fylgdi eftir góðum árangri í langstökki í gær og vann til gullverðlauna í þrístökki á nýju mótsmeti á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum á Kópavogsvelli í dag.
Jóhanna stökk 12,89 metra og bætti mótsmetið um sjö sentímetra, og sinn besta árangur um níu sentímetra. Hún stökk einnig 13,10 metra, sem er átta sentímetrum frá Íslandsmeti Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur, en það stökk var dæmt ógilt þar sem vindhraði var 2,1 m/s. Vindhraði má mestur vera 2,0 m/s.