Usain Bolt bætti eigið heimsmet í 200 metra hlaupi nú rétt í þessu á heimsmeistaramótinu í Berlín. Jamaíkubúinn kom í mark á 19,19 sekúndum og bætti metið um 11/100 úr sekúndu. Þess má geta að hann bætti heimsmetið í 100 metra hlaupi í Berlín um 11/100 úr sekúndu einnig, 9,58 sek.
„Ég bjóst aldrei við heimsmeti í kvöld," sagði Bolt eftir hlaupið. „Ég var þreyttur en ég sagði við sjálfan mig að ég myndi gera mitt besta. Nú er ég þreyttur! Ég var of spenntur. Þetta var ekki sérstaklega gott hlaup en það var hratt."
Bolt sagðist ekki vita hvar endimörk getu hans lægju. „Ég reyni bara að hlaupa eins hratt og mögulegt er. Ég reyni að skemmta mér og leikvangurinn, sem var allur að baki mér, veitti mér kraft. Þetta var vissulega svalt augnablik."
Bolt náði besta viðbragðinu af hlaupurunum átta. Þegar að síðustu metrunum kom var hann svo langt á undan keppinautunum að eina spurningin var hvort heimsmetið myndi falla.
Bolt setti heimsmet í 200 metra hlaupi fyrir ári síðan á Ólympíuleikunum í Peking en þar hljóp hann á 19,30 sekúndum.
Alonson Edwards frá Panama varð annar á 19,81 sekúndu og Wallace Spearmon frá Bandaríkjunum varð þriðji á 19,85 sekúndum.